Síðan ég, Margrét Maack, byrjaði að kenna dans hef ég heyrt oftar en ég get talið: „Mig langar svo að koma á dansnámskeið en mér finnst ég of gömul/feit/úthaldslaus/taktlaus/<afsökun að eigin vali> til að þora að koma.“

Svo hér er námskeið fyrir allar þær sem hafa hingað til látið afsakanirnar hindra sig í að koma. Ég trúi því að allir geti dansað – en ef allir kynnu það, þá væri ég atvinnulaus.

„Það voru ekki liðnar 5 mínútur af fyrsta tímanum þegar ég hóf að dansa sem aldrei fyrr. Þessar fyrstu mínútur voru skemmtilegri en öll fjórtán árin mín í ballet til samans og eftir tímann skokkaði ég sveitt og hamingjusöm heim. Ég bæði lærði að dansa á nýjan hátt og að meta líkama minn. Allt í einu spilaði hamborgararassinn minn lykilhlutverk í danssporum, aldrei hefði ég trúað því.“
– Anna Margrét

Danstímarnir miða að því að hafa gaman, fá útrás og fíflast í ákveðnu vernduðu umhverfi. Kramhúsið hefur alla tíð verið mikið líkams- og aldursvirðingahús og verða tímarnir smíðaðir í kringum þær sem skrá sig til leiks. Hér er enginn að dæma.

Kennt er einu sinni í viku, á miðvikudögum kl. 20:45-21:45 í sex vikur í Kramhúsinu, neðri sal. Kramhúsið er bakhús í porti bakvið Bergstaðastræti 7 (Rauðakross-búðina á Bergstaðastræti). Námskeiðið kostar 15.800 og er sums staðar hægt að fá það niðurgreitt af stéttarfélögum eða sem íþróttastyrk. Það eru aðeins 15 pláss í boði.

Námskeiðið hefst 15. janúar.
Tekinn verður fyrir einn dansstíll í hverjum tíma:
16. janúar: Magadans
23. janúar: Broadway
30. janúar: Mamma Mia
6. febrúar: Bollywood
13. febrúar: Burlesque
20. febrúar: Beyoncé
– Birt með fyrirvara um að hópur gæti ákveðið eitthvað annað í sameiningu eða kennari fengið skyndiæði. –