Leikur og skapandi hreyfing fyrir 3 – 6 ára með foreldri.

Nokkur orð um fyrirkomulag frá kennaranum, Önnu Heru:

Helsta markmiðið mitt er að kynna ákveðna leið fyrir  börn og foreldratil að eiga gæðastund í gegnum leik og hreyfingu.

Í þeim æfingum sem við gerum er verið að reyna á traust milli barns og foreldris og hreyfifærni þeirra beggja. Í raun má segja að þessir tímar séu alveg jafnmiklir foreldratímar eins og tími fyrir börn, þó foreldrar líti oft svo á að þeir séu að gera þetta fyrir börnin 🙂

Í tímunum eru foreldrar hvattir til að færa sig niður á „level“ barnanna, við förum niður á hné, leggjumst á bakið, grúfum okkur o.s.frv.

Einnig orkulega, en foreldrarnir eru hvattir til að bregðast stundum skjótt við, skipta oft um hlutverk og vera hvatvísari í leik en oft er raunin með þroskað
fólk. Að sama skapi er einnig tekin frá tími þar sem reyna þarf á einbeitingu og slökun sem stundum er áskorun fyrir börnin.

Þannig að nákvæmlega hvað börnin eru gömul skiptir ekki öllu máli, útfæra má æfingarnar í tímunum eftir þroska.

Börnin sjá að þau tilheyri hópi fólks sem inniheldur bæði yngri og eldri aðila og að það sé eðlilegt að hreyfa sig og leika sér í þannig hópi.

Aðeins um Önnu Heru.

Ég heiti Anna Hera og hef æft dans frá 10 ára aldri. Ég hef alltaf verið mjög forvitin um dans og sótt dansæfingar í ýmsum dansstílum og má þar nefna jazzballet, nútímadans, hip hop, afro og bollywood dans.

Ég hef starfað sem danskennari hjá heilsuræktinni Hreyfilandi og kennt þar börnum á aldrinum 4-13 ára í nokkur ár. Einnig hef ég kennst danstíma fyrir börn og fullorðna í Dansverkstæðinu í Reykjavík og leitt tíma í hreyfingu á leikskólanum Stakkaborg.

Sumrin 2013, 2014 og 2015 setti ég upp danssýningar þar sem börn tóku þatt á nokkrum leikskólum á höfuðborgarsvæðinu.

Ég hef sótt fjölda námskeiða í dansi, hreyfingu og kennslu. Sem dæmi hef ég sótt kennaranámskeið í krakkajóga (2013). Fengið kennsluréttindi í í contaKids tækni, sem er ákveðin aðferðafræði um hvernig hreyfingarútínur, leikir og æfingar henti börnum og foreldrum til að gera saman (2016) . Einnig hef ég þjálfararéttindi frá ÍSÍ (2017) þar sem m.a er farið yfir grunnatriði í hreyfiþroska barna, jákvæðar aðferðir við þjálfun barna og æskilega framkomu og samskipti við börn og foreldra.

Kennt er á laugardögum kl. 12:00.

Skáning hér